Ungmenna-og tómstundabúðir Ungmennafélags Íslands
  • Forsíða
    • Laugar >
      • Heimavistaskólinn í Sælingsdal
  • Ungmennabúðir
    • Rannsóknir og ritgerðir um starf búða
    • Saga Ungmenna- og tómstundabúðanna >
      • Lög Ungmenna- og tómstundabúðanna
    • Starfsmenn
    • Námskeið Ungmennabúðanna >
      • Hólaganga og hólaheimsókn
    • Kynningarefni: Myndbönd >
      • Ferðasögur, greinar og matsblöð
      • Erlent myndband um skólabúðir
    • Mat á starfi búðanna
    • Heilsueflandi búðir
    • Grænfáninn >
      • Umhverfisstefna >
        • Umhverfisstefna UMFÍ
    • Tenglar
  • Upplýsingar
    • Til skólastjórnenda >
      • Ábyrgð skólans
      • Umsóknareyðublað 2018-2019
    • Til aðalfararstjóra >
      • Aðstaða og gátlisti fararstjóra
    • Til foreldra >
      • Umsagnir foreldra
      • Matseðill
    • Til nemenda >
      • Gátlisti >
        • Óskilamunir
      • Bæklingur og reglur
    • Útbúnaðarlisti nemenda
    • Reglur
    • Verð
  • Skólaferðalög
  • Ferðamenn
    • Gisting
    • Möguleikar í Sælingsdal
    • Lillulundur
    • Guðrúnarlaug
    • Gönguleiðir >
      • Tungustapi
    • Áhugaverðir staðir að heimsækja >
      • Ekið um strandir
  • Sælingsdalslaug
    • Opnunartími
    • Verðskrá
    • Saga Sælingsdalslaugar
  • English
    • UMFI
    • Camp Laugar >
      • Info for participants and parents
      • Pack list for CAMP
      • Our programs & activities
    • Internship
    • For tourist

Ekið kringum Strandir

Eftirfarandi texti er byggður á samskonar texta í fjölriti sem Byggðasafni gaf út um 1980. Sigurður Þórólfsson, Innri-Fagradal, las hann yfir og breyti aðeins svo hann sómi sér betur á 21. öldinni.   

Það hefur orðið að venju að fara „fyrir Strandir“  (Hvammssveit, Fellsströnd, Skarðsströnd og Saurbæ) sólarsinnis frá vegamótum Strandavegar og Vesturlandsvegar á sunnanverðum Leysingjastaðamelum. Er þá farið yfir svonefnda Laxá, en hún myndast af tveimur ám, Sælingsdalsá að vestan og Svínadalsá að austan.

Þegar komið er yfir Laxá er Krosshólaleiti framundan. Sjávarmegin vegar á leitinu er allhá klettahæð sem heitir Krosshólaborg. Í Landnámu segir að Unnur djúpúðga, fyrsta kristna landnámskonan (en hún var ekkja Ólafs hvíta, herkonungs á Írlandi) hafi haft bænahald sitt á Krosshólum, og þar lét hún reisa krossa. Unnur lagði svo fyrir, áður en hún andaðist, að hún skyldi grafin í flæðarmálinu, því hún vildi ekki hvíla í óvígðri mold, og var svo gert. Allstór steinkross er efst á klettaborginni. Krossinn er til minningar um Unni, en hún lét reisa hinn fyrsta bæ í Dölum, Hvamm í Skeggjadal. Félagsamtök breiðfirskra kvenna höfðu alla forgöngu um minnismerki þetta og fór afhjúpun þess fram á fjölmennri héraðssamkomu þann 8. ágúst 1965. Svo skemmtilega vildi til að írsk kona (Janet Ingibergsson frá Belfast), er þá var prestfrú í Hvammi, afhjúpaði krossinn og mátti segja að þá hafi tengst ellefu hundruð ára byggðarsaga héraðsins.

 Áður en komið er fyrir enda fjallsins er á vinstri hönd rétt, Skerðingsstaðarétt en hún er lögrétt Hvammssveitar, þegar komið er framhjá henni hallar vegurinn niður í grösugan dal er heitir Skeggjadalur. Á melhjalla, austanmegin í dalnum er kirkjustaðurinn Hvammur. Hvammur er merkur sögustaður. Þar bjó fyrst Unnur Ketilsdóttir sem áður er getið. Unnur nam land allt við innanverðan Hvammsfjörð frá Skraumuhlaupsá til Dögurðarár og gaf skipverjum sínum lönd víða á því svæði. Á 10. öld bjó þar Þórður gellir Ólafsson (en hann var sonur Ólafs feilan, Þorsteinssonar rauðs, sem var sonur Unnar djúpúðgu), einn mesti höfðingi landsins á þeim tíma. Þar bjó Sturla Þórðarson (1115-1183), ættfaðir Sturlunga en hann var Dalamaður að ætt og uppruna, og þar fæddist Snorri Sturluson (1179-1241), sonur hans. Árni Magnússon (1663-1730), prófessor, ólst upp í Hvammi hjá séra Katli Jörundssyni afa sínum. Árni fæddist á Kvennabrekku í Miðdölum og var Dalamaður að ætt að stórum hluta. Séra Ketill var kunnur lærdómsmaður, enda rektor Skálholtsskóla um alllangt skeið og kunnur af afskriftum og fræðimennsku. Löngum voru prestar þaulsætnir í Hvammi og það svo, að við fáa staði aðra verður jafnað.

Er nú farið fyrir mynni Skeggjadalsins, framhjá útsveitarbæjum Hvammssveitar og allt út á Hafnarháls, sem kenndur er við eyðibýlið Knarrarhöfn. Stendur bærinn austan í hálsinum. Daði Guðmundsson, sýslumaður og ríkisbóndi í Snóksdal (d. 1563) átti jörðina Knarrarhöfn, ásamt mörgum öðrum jörðum vítt um sveitir á Vesturlandi, enda einn mesti auðmaður Vestanlands um sína daga. Eitt af stórbúum Daða var í Knarrarhöfn. Það er til marks um bústærðina þarna ásamt fyrirferð hins „hvíta matar“ á fyrri tímum, að það kemur fram í dánarbúsuppskrift eftir Daða, að geymslur og ílát fyrir aðeins skyr og sýrur var til í Knarrarhöfn, sem rúmað gátu 1800 potta.

Í framhaldi af Hafnarhálsinum og nokkuð hornrétt á hann gengur fjallsbrík langan veg út með firðinum og eru þar nokkrir bæir á mjóu undirlendi undir lágum hlíðum. Fjallsbrík þessi er aflíðandi á þá hlið er frá firðinum veit og er þar á bakvið breiður og alllangur dalur og í honum nokkrir bæir. Þetta svæði hét Finnmörk á fyrri öldum. Vitnar sú nafngift um skóglendur liðins tíma. Á Finnmörk eru tveir ystu bæir Hvammssveitar, Rauðbarðaholt og Hóll, sem er jaðarbær í Hvammssveit, en svo tekur við Fellsströnd. Sveitarmörkin eru um Hólsá.

Fyrsti bær á Fellsströnd er eyðibýlið Hafursstaðir og síðan tekur við Breiðabólsstaður. Frá Breiðabólsstað er Friðjón Þórðarson, fv. sýslumaður, ráðherra og alþingismaður í Vesturlandskjördæmi. Sama ættin hefur búið þar frá því um miðja 18. öld. Svo löng búseta sömu ættar gerist nú sjaldgæf, en var áður fyrr næsta algeng í Dölum.

Þegar komið er út hjá bænum Hellu opnast útsýni til innstu eyjanna í mynni Hvammsfjarðar, og heitir innsta eyjan Lambey og liggur undir Staðarfelli. Ytri hluti Skógarstrandar blasir við handan fjarðar og í björtu veðri sjást bæði Bjarnarhafnarfjall og Eyrarfjall við Grundarfjörð. Á kyrrum og björtum vetrarkvöldum sjást ljósin tindra í Stykkishólmi, enda stutt loftlína yfir fjörðinn.

Næsti bær utan Helluár er eyðibýlið Skógar. Það er í eigu Skógræktar ríkisins og verður alfriðað til skógræktar. Frá Skógum er nokkurn veginn samfellt skóglendi út undir Staðarfell.

Staðarfell hefur um langan aldur verið kirkjustaður og var löngum í röð hinna meiri höfuðbóla við Breiðafjörð. Einn af fyrstu nafnkenndu höfðingjum, er sátu staðinn var Þórður Gilsson, faðir Hvamms-Sturlu. En á seinni öldum var einna þekktastur Bogi Benediktsson, fræðimaður, sá er samdi hið mikla rit, Sýslumannaævi, sem enn í dag er meðal merkustu rita um íslenska persónusögu. Um nokkurn tíma, fyrir og um síðustu aldamót sátu landskunnir valdsmenn stuttan tíma á Staðarfelli, s.s. Hannes Hafstein, skáld og ráðherra (1886) og Páll Briem, seinna amtmaður (1886-87).

Seinastur stórbænda á Staðarfelli var svo Magnús Friðriksson (1862-1947). Þegar hann hætti búskap, 1921, gaf hann jörðin til stofnunar kvennaskóla. Húsmæðraskóli var þar frá árinu 1927-1976. Nú er rekin starfsemi á vegum S.Á.Á. á Staðarfelli og hefur svo verið frá því um 1980.

Frá Staðarfelli liggur leiðin meðfram Fellinu, sem endar í Ytrafellsmúla. Þegar þangað er komið, stækkar undirlendið. Ef litið er út til fjarðarins gerast eyjarnar svo þéttar utan fjarðarmynnisins, að yfir að líta er það sem samfellt land, enda eru sum eyjasundin afar mjó og með hörðum straumum. Dalamegin við miðjan fjörð er nokkur eyða í eyjaklasann, og er þar siglingaleiðin inn á Hvammsfjörð og heitir Röst. Til hægri opnast tveir dalir inn til landsins, heitir Flekkudalur sá til hægri og opnast í suðaustur, en beint í austur sér í mynni Galtardals.

Undir múlanum milli dalanna eru bæirnir Stóra-Tunga og Galtartunga. Neðst á Flekkudal er nokkrir bæir og heitir þar Efribyggð á Fellsströnd. Í Galtardal voru fyrrum tveir bæir, Stóri- og Litli-Galtardalur. Þrír þjóðkunnir Íslendingar dvöldu um skeið í Galtardal. Þeir voru: Séra Jón Þorláksson (1744-1819), prestur og skáld, oftast kenndur við Bægisá í Eyjafirði, bjó stuttan tíma ásamt Margréti Bogadóttur úr Hrappsey, í Galtardal og flutti þaðan norður. Guðbrandur Vigfússon (1827-1889), löngum kenndur við háskólabæinn Oxford í Englandi, enda dvaldi hann þar langdvölum við fornritaútgáfur og fræðimennsku. Doktor Björn Guðfinnsson (1905-1950) málfræðingur og háskólakennari var uppalinn í Galtardal.

Ytrafell er nú í eyði, en þar vex nú fríður nýskógur og þar er stærsta, samfellda skóglendi sýslunnar. Handan Kjallaksstaðaár, (sameinaðar árnar úr Galtardal og Flekkudal) er Kjallaksstaðir, bær landnámsmannsins Kjallaks gamla, hann nam land frá þeim stað er landnám Unnar þraut og náði það að Klofningi. Næsti bær við veginn þegar haldið er frá Kjallaksstöðum er Vogur. Bærinn var færður og stendur nú upp við fjallið en sjávarmegin vegar eru gamlar bæjarrústir, þar dvaldi um tíma séra Jón Bjarnason, faðir Bjarna Jónssonar, er kenndi sig við bæinn. Minnismerki um Bjarna frá Vogi stendur austan við gamla túnið í grasivaxinni laut.

Af leitinu ofan við Vogsbæinn gamla sér tvo bæi framundan, annar er uppi undir fjalli og er það Víghólsstaðir, en hinn er handan vogsins niðri í nesi og er það Arnarbæli. Arnarbæli var á fyrri tímum ein allra besta bújörð landsins. Nesið stóra, þar sem Arnarbæli stendur í jaðri, er Dagverðarnes, og þar gengur land lengst til vesturs í Dalasýslu, ásamt eyjunum fyrir utan. Hæðarhryggir byrgja útsýni framundan þegar haldið er frá Vogi, og heita Ekrur. En þegar komið er neðanvert við Ekrurnar opnast útsýni framundan til bæja undir fjallinu. Þetta fjall, með hvassri öxl til vesturs, heitir Klofningsfjall og öxlin Klofningshyrna.

Nú liggur vegurinn um undirlendið ofan við Dagverðarnesið og þegar kemur spöl vestur fyrir Ormsstaði blasir við langur sjávarvogur er gengur inn milli ness og meginlands. Vogur þessi heitir nú Ormsstaðavogur en hét Álftavogur til forna. Í botn hans rennur Fábeinsá. Nú blasir við að Dagverðanes er tengt meginlandinu með mjög lágu, breiðu eiði, milli tveggja voga, og eru á eiðinu tvö aflöng stöðuvötn í stefnu þvert yfir milli vogsbotnanna. Heitir Arnarbælisvatn það syðra og hitt Ormsstaðavatn. Land þetta er hæst á nesinu næst eiðinu og fyrir miðju trónar hár klettakambur og heitir því myndarlega nafni Hraunfjöll. Þessi aflanga klettaborg er vaxin töluverðum skógi, og er þetta með fallegri stöðum í Dölum þegar á er komið og útsýni sérkennilegt yfir kjarri vaxnar klettaborgir og flóasund á nesinu. Vegarslóði liggur niður í nesið, áleiðis að kirkjunni en er ekki fær hvaða ökutæki sem er. Á nesinu norðvestanverðu stendur kirkjustaðurinn Dagverðarnes. Staðurinn hefur verið í eyði síðan upp úr 1950. Kirkjan stendur, en þar er messað einu sinni á ári. Það er ekki að ástæðulausu að kirkja var sett þarna á nesinu, því nokkur hluti sóknarinnar voru eyjabýli þarna út af og norðan við. Út af nesinu eru þrjár eyjar sem byggðar voru: Skáley næst landi, Purkey og yst Hrappsey. Mjó sund eru á milli og sýnist tilsýndar vera samfellt.

En höldum nú leið okkar áfram eftir aðalveginum til Klofningshyrnu þar sem vegurinn liggur um sjálfgerð, opin göng gegnum fjallsranann fram úr vesturenda Klofningsfjalls. Þar er kjörinn áningarstaður og hefur útsýnisskífu verið komið þar fyrir. Þar er nokkuð gott útsýni til fjarðar, eyja og fjalla, sunnan og norðan Breiðafjarðar. Í góðu skyggni sér til Snæfellsjökuls í suðvestri, en allt vestur til Skorarhlíða í norðvestri og í björtu skyggni má að vetrinum sjá ljósin í Flatey. Framundan til suðvesturs liggja svo Suðureyjar allar en Vestureyjar framundan Gilsfirði og Barðaströnd og er allbreiður flói á milli.

Suðureyjar liggja bæði í Dalasýslu og Snæfellsnessýslu. Af þeim eyjum er tilheyra Dalasýslu er Fremri-Langey stærst. Eins og áður er getið liggja þrjár eyjar útaf Dagverðarnesi. Í Purkey bjó snemma á 19. öld Ólafur Sveinsson (1761-1845) merkur fróðleiksmaður, sem skrifaði m.a. einna fyrstur álfasögur. Hrappsey var talin stórbýli áður fyrr og þar bjuggu ýmsir merkir menn. Þar bjó Bogi Benediktsson eldri (1723-1803). Hann rak prentsmiðju þar á árunum 1773-1795. Þar var prentað fyrsta tímarit á Íslandi – Islandske Maanedstidender. Það var við þessa prentsmiðju sem séra Jón Þorláksson á Bægisá, sem áður er getið, fékk starf sem prófarkalesari árið 1773. Þegar hann hrökklaðist úr preststarfi eftir endurteknar barneignir með Jórunni Brynjólfsdóttur úr Fagradal. Alls kom út í Hrappsey á áttunda tug bóka og pésa, þar á meðal rímur og rit um landbúnað, lögfræði og sagnfræði, sem þá var nýjung hér á landi. Þar kom einnig út fyrsta ljóðabók séra Jóns Þorlákssonar sem að mestu voru þýðingar á ljóðum danska skáldsins Tullins en var svo endurbætt og gefin út 1783, þá sem Ljóðmæli Jóns Þorlákssonar, þar sem nú var það að mestu frumsamin ljóð og sálmar. Fram af Klofningshyrnu er svo önnur röð eyja sem voru í byggð á árum áður. Næst landi er Efri-Langey og síðan Fremri-Langey og yst Arney.

Utan til á svæðinu milli eyjaraðanna tveggja, sem nú hefur verið lýst, voru á fyrri öldum tvö eyjabýli, Klakkeyjar skammt norður af Hrappsey, og Kiðey nálægt Arney. Klakkeyjar eru nokkrar að tölu, en tvær eru stærstar, Bæjarey og Klakkar, og fjarar á milli. Klakkar eru eina verulega háa eyjan á Breiðafirði. Upp af eyjunni rísa tveir vörðulaga tindar og er aðeins sýling á milli. Þessir tindar sjást hvaðanæva að við sunnanverðan Breiðafjörð þar sem þeir eru í sjónmáli. Á fyrstu öldum byggðar hétu tindarnir Dímon sem þýðir Tvífjall, og er heitið talið komið úr keltnesku. Seinna varð nafnið Dímonarklakkar, og að lokum aðeins Klakkar. Í Dímonarvogi í Klakkeyjum leyndist Eiríkur rauði áður en hann sigldi til Grænlands. Stærsta eyja Breiðafjarðar er Brokey, en hún liggur skammt undan Skógaströnd og tilheyrir því ekki Dalasýslu. Hún tilheyrir þó sveitarfélaginu Dalabyggð eftir að Skógarstrandarhreppur sameinaðist því.

Fyrir utan Klofningshyrnu tekur við Skarðsströnd. Frá Klofningi að Skarði er allbreitt undirlendi upp af sjónum. Þar hefur orðið einna mest fækkun býla í sýslunni. Frá Klofningi að Krossá er aðeins einn bær í byggð en það er Ballará. Nú eru þar í eyði bæirnir Melar, Frakkanes, Kross og Reynikelda, auk húsmennskubýlanna tveggja, Ballárárgerða og Skálatófta.

Á Ballará hafa ýmsir merkir menn búið, s.s. Pétur Einarsson (1597-1666) en hann var lögréttumaður og kunnur annálaritari. Þar bjó einnig um skeið séra Eggert Jónsson (1775-1846), sá kunni veraldarklerkur. Um hann hefur margt verið skrifað, og samtíðarmenn hans töldu margir, að hann hefði verið hluti efniviðar í séra Sigvalda í Manni og konu eftir Jón Thoroddsen. Sonur hans var séra Friðrik Eggerz sem lengst var kenndur við Akureyjar á Skarðsströnd.

Frá Ballará liggur vegurinn fyrst inn Ballarárhlíð, að fyrrverandi sveitarmörkum milli Klofningshrepps og Skarðshrepps á svokallaðri Deild, og síðan inn Reynikelduhlíð. Gróðurlendi frá þessum hlíðum til sjávar mun vera stærst samfellt ræktanlegt land í Dalasýslu, á annað þúsund hektarar.

Þegar komið er yfir Krossá, er ekið um hlað á þeim bæ, sem aðeins hefur einn staf í nafni sínu, nefnilega stafinn Á. Er nú ekið á milli lágvaxinna birkirunna, er á fyrri tíð luku saman greinum sínum yfir höfðum þeirra, sem um vegin fóru. Þar heita Skógargötur. Skarð á Skarðsströnd er áningarstaður flestra er um Strandir fara og er það að vonum. Lengi frameftir öldum var Skarð kunnast allra höfuðbóla við Breiðafjörð og eitt hið helsta hér á landi. Bar þar margt til, bæði gífurlegar eignir á landi og ekki síður í eyjum, svo og völd og umsvif Skarðverja sjálfra. Þekktastur þeirra Skarðverja á miðöldum eru þau hjónin Björn Þorleifsson, hirðstjóri og Ólöf ríka Loftsdóttir. Englendingar drápu Björn úti í Rifi árið 1467, en Ólöf hefndi þess grimmilega á næstu árum, en hún bjó á Skarði til dauðadags 1479. Skarð er sú jörð hér á landi, sem lengst hefur haldist í eigu sömu ættar. Með vissu má telja að hún hafi í erfðir gengið sömu ættar allt frá 11. öld og nokkur líkindi til að þar áður hafi þar setið niðjar Geirmundar heljarskinns, sem bjó á Geirmundarstöðum, en sá bær er neðan vegar við Skarðstún. Geirmundur er sagður hafa numið land frá Klofningi að Klofasteinum á Nípurhlíð. Miðað við fyrri aldir er fátt gamalla minja á Skarði. Þó má telja hina stórmerku altaristöflu kirkjunnar með merkustu fornminjum kirkjulegra minja á landi hér. Munnmæli segja að hún sé gefin kirkjunni af Ólöfu ríku á 15. öld.

Skarðverjar höfðu sína höfn og hafnaraðstöðu í Skarðsstöð, en þangað niður eftir hefur verið löng sjávargata á fyrri tíð. Nú er í Skarðsstöð ágæt smábátahöfn með flotbryggju, ágæt aðstaða fyrir grásleppuveiðimenn, en nokkur útgerð er þaðan á vorin og fram á sumar. Lítið sér til fornra mannvirkja á Skarði. Er helst að telja örnefni nokkur, sem tengjast nöfnum Skarðverja á fyrri tíð, eins og t.d. Smjörskemmuhólar, sem eru undir Skarðshyrnu, norðanvert við Skarðstún. Þar átti Ólöf ríka Loftsdóttir að hafa geymt smjörbirgðir sínar, er hafa verið miklar að vöxtum, þar sem leigur og landskuldir voru yfirleitt goldnar í landaurum.

Fyrsta fasta verslun í Dalasýslu hófst í Skarðsstöð 1890 og stóð til 1911. Eftir það var þar rekið útibú frá verslun í Stykkishólmi nokkuð frameftir öld.

Nú eru eknir nokkrir km. frá Skarði inneftir ströndinni og innan skamms opnast Búðardalur á Skarðsströnd. Þegar farið er framhjá Hvalgröfum (Klifmýri) og áður en farið er yfir Búðardalsána sést til eyðibýlisins Tinda á Skarðsströnd. Í landi Tinda, niður við ströndina var rekin brúnkolavinnsla um nokkurra ára skeið. Um miðja öldina féll þessi námugröftur niður. Frá Búðardalsá blasir við Svarthamar fyrir ofan bæinn í Búðardal.

Bærinn Búðardalur er innan við Tinda og var fyrrum aðalbýlið í dalnum. Meðal nokkurra þekktra manna er fyrrum sátu Búðardal, má einkum nefna Magnús sýslumann Ketilsson (1732-1803). Magnús stundaði merkar tilraunir í garðrækt og alls konar jarðyrkju. Hann fékk t.d. bygg til að þroskast og voru gerðir af því bæði brauð og grautar. Magnús samdi nokkur rit til leiðbeininga meðal bænda. Hann var mjög með í ráðum gagnvart starfsemi Hrappseyjarprentsmiðju og þar var prentað fyrsta tímarit landsins, sem Magnús stóð að. Magnús má telja meðal merkustu Íslendinga 18. aldar. Búðardalur var kirkjustaður og þar stóð kirkja fram um miðja 19. öld.

Nú liggur vegurinn undir brattri hlíð er nefnist Nýpurhlíð. Yst á henni eru Klofasteinar er skildu að landnám Geirmundar og Steinólfs lága. Steinólfur nam land frá Klofasteinum að Grjótvallarmúla, sem eru melarnir undan Holtahyrnu í Saurbæ. Steinólfur bjó í Fagradal (ytri)

Í Fagradalnum eru 3 býli, þ.e. Ytri- og Innri-Fagridalur og Foss, sem er ysti bær í Saurbæ og er því Fagradalsáin á sveitaskilum Saurbæjar og Dalabyggðar. Ytri-Fagridalur er innsti bær á Skarðsströnd.

Frá Innri-Fagradal blasir Hafratindur (923 m) best við, hæsti tindur á fjallgarðinum milli Hvammsfjarðar og Breiðafjarðar, og hæsta fjall sýslunnar. Þótt Tröllakirkja, sem er á mótum þriggja sýslna sé örlítið hærri.

Nú liggur vegurinn inn svonefnda Tjaldaneshlíð, en fyrsti bær sem heilsar er Tjaldanes í Saurbæ. Þar bjó fram á síðustu öld Magnús Jónsson (1835-1922), sem var mjög afkastamikill afritari handrita, og einn af seinustu stórvirkum skrifurum. Af Tjaldaneshlíðinni sér yfir til Reykhólasveitar. Reykhólar, fremst á nesinu með talsverðar húsabyggingar og kirkju, en á Reykhólum er nú lítið þorp. (123 íbúar í des. 2002) Þar er fram við sjóinn starfrækt verksmiðja sem vinnur þang og þara. Mynni fjarðanna Króksfjarðar að austan og Berufjarðar að vestan sjást, en nestanginn á milli þeirra er kallað Borgarlandið. Barmahlíðin, sem sýslumaðurinn og skáldið Jón Thoroddsen orti um hið alkunna ljóð „Hlíðin mín fríða“ liggur að vestanverðu við Berufjörðinn. Innar og norðanmegin Gilsfjarðar sér inn í Geiradalinn og verslunarstaðurinn Króksfjarðarnes er þar á nesinu milli Gilsfjarðar og Króksfjarðar, skammt vestan Gilsfjarðarbrúarinnar, sem vígð var 30. okt. 1998.

En við erum stödd í Saurbæ, einni sumarfegurstu sveit við innanverðan Breiðafjörð, þar sem undirlendi allt er vafið grasi milli hárra fjalla, sem bera vestfirskan svip í brúnum. Á miðju undirlendinu á hól sem nefnist Skollhóll, rís kirkja og samkomuhús sveitarinnar, en áður stóðu kirkjur á Hvoli og Staðarhóli. Voru þær báðar lagðar af við síðustu aldamót, en núverandi kirkja reist í stað þeirra. Þar heitir nú Kirkjuhóll.

Meginbyggð Saurbæjar skiptist í tvo dali, Hvolsdal að austan en Staðarhólsdal að vestan auk þeirra bæja, er þegar hafa verið nefndir. Staðarhóll (sem nú hefur verið í eyði um skeið) var eitt af helstu höfuðbólum landsins fyrr á öldum. Þar bjuggu löngum höfðingjar og ríkismenn, enda fylgdu staðnum um skeið allar jarðir í dalnum 11 að tölu. Þar bjó á 13. öld lögmaðurinn, skáldið og sagnfræðingurinn Sturla Þórðarson (1214-1284). Á Staðarhóli bjó um skeið Páll sýslum. Jónsson (d. 1598) og var hann löngum nefndur Staðarhóls-Páll. Hann var talinn einn allra snjallasti lagamaður landsins um sína daga, en þótti mesti ribbaldi og orðhákur mikill.

Skammt vestan kirkjunnar á Kirkjuhóli er Flæðilækur, sem talið er að Staðarhóls-Páll hafi látið víkka og dýpka, og rétt ofan við veginn þar sem ekið er yfir lækinn er svokallaður Skipapollur og talið er, að þangað hafi skipunum verið fleytt upp á flóði (sjávarfalla gætir upp að Kirkjuhóli) og verið affermd. Varningi var síðan ekið heim að Staðarhóli á ísum að vetrinum. Flæðilækur rennur í Hvolsá, niður undir Ásum, þar sem Hvolsá og Staðarhólsá mætast. Það má því segja að þetta sé fyrsti og jafnframt eini skipaskurður á landinu.

Áður en haldið er lengra er rétt að gera stuttan stans á Kirkjuhóli og litast um yfir sveitina, en eins og áður segir standa hér Staðarhólskirkja (byggð 1899) og Tjarnarlundur félagsheimili sveitarinnar.

Á Kirkjuhóli eru minnismerki um skáldin þrjú úr Saurbænum; Sturlu Þórðarson, Stefán frá Hvítadal og Stein Steinarr.

Kirkja fauk af grunni sínum í aftakaveðri í feb. 1981 en stöðvaðist á félagsheimilinu, að mestu óskemmd, og var færð á sama stað aftur á steyptan grunn. Árið 2000 var stofnaður grunnskóli í Saurbænum og er hann til húsa hér í félagsheimilinu.

Við byrjum hringinn á að horfa til vesturs frá kirkjunni og þá blasir við og ber við loft Tjaldanes, sem áður er getið. Framan við nesið, í Salthólmavík, stóðu verslunarhús og sláturhús Kaupfélags Saurbæinga, sem stofnað var 1898, mest fyrir atbeina Torfa í Ólafsdal, sem hafði forystu um flest framfaramál sveitarinnar á þeim árum. Í Salthólmavík var lendingarstaður Saurbæinga og þar var vörum skipað upp, en sæta þurfti sjávarföllum.

Við snúum okkur nú til suðurs og horfum fram í Staðarhólsdalinn. Á háum hól undir vesturhlíð dalsins er Saurhóll þar sem Kjartan Ólafsson dvaldi síðustu nóttina áður en hann reið suður Svínadal þar sem Bolli fóstbróðir hans var honum að bana.

Á hól undir austurhlíðinni er Staðarhóll sem áður er getið, sem Þorgils Oddason og Einar sonur hans gerðu frægan á Sturlungaöld og margir höfðingjar sátu síðar. Framan og ofan við Staðarhól er Mikligarður, þar ólst upp Steinn Steinar skáld sem var Dalamaður að mestu að uppruna. Fram úr Staðarhólsdal, inn Hvammsdal, var áður fjölfarin leið yfir Sælingsdalsheiði til Hvammssveitar, og er enn farin af hestamönnum.

Við snúum nú til austurs og horfum fram í Hvolsdalinn. Við dalsmynnið að sunnanverðu eru Múlabæirnir, Efri- og Stóri-Múli og Belgsdalur ofar, en þaðan er einnig leið til Hvammsdals. Lengra fram með fjallinu að sunnanverðu er bærinn Hvítidalur við mynni samnefnds dals. Þar ólst upp skáldið Stefán Sigurðsson, sem kenndi sig við Hvítadal. Undir hyrnunni milli Svínadals og Brekkudals stendur bærinn Bessatunga, sem er síðasti bær á vinstri hönd, þegar ekið er suður Svínadal, en héðan blasir hann við fyrir botni Hvolsdals.

Í Bersatungu bjó Stefán frá Hvítadal síðustu ár ævinnar. Þar er bær skáldsins. Hann andaðist í Bersatungu árið 1933, aðeins 46 ára. Hann hvílir í kirkjugarðinum á Kirkjuhóli. Í Bessatungu ólst einnig upp Torfi í Ólafsdal, sem kom þangað þriggja ára með foreldrum sínum.

Neðar með fjallinu að norðan nærri mynni dalsins er prestsetrið Hvoll. Nokkru neðar með fjallinu, við vegamót Vesturlandsvegar og Skarðsstrandarvegar, er verslunin Skriðuland, þar sem nú er komin ágæt veitingaaðstaða auk verslunar. Kaupfélag Saurbæinga, sem áður var í Salthólmavík, var flutt að Skriðulandi árið 1956 til að komast nær aðalumferðarleiðinni og þar var verslun þess rekin til 1994 er það hætti rekstri. Verslunarreksturinn hefur verið á hendi einkaaðila síðan.

Við snúum nú til norðurs og fylgjum Vesturlandsvegi frá Skriðulandi til norðurs. Þá er komið að Brunnárbæjum, Efri- og Neðri. Á eyrinni við Brunnána, skammt ofan vegar reisti Kaupfélagið sláturhús árið 1963 og rak það í rúm 30 ár. þegar horft er lengra til norðurs sjást bæirnir Stórholt og Litlaholt, og þvínæst verksmiðjuhús Fóðuriðjunnar í Ólafsdal, sem reist var í landi þessara jarða og rekur þar graskögglaverksmiðju, þá einu sem eftir er í landinu.

Fjaran fyrir Saurbænum var á fyrri öldum eftirsótt til sölvatekju, einkum í landi Tjaldaness. Sóttu bændur þangað til sölva, ekki aðeins úr Dalasýslu, heldur einnig úr öðrum héruðum, jafnvel frá sjálfum Hólastól. Áttu kirkjustaðir margir rétt þar til sölvatekju og var hún metin í hundrum á landvísu svo sem jarðeignir.

Í Holtafjöru var um árabil mikil hrognkelsaveiði. Menn fóru á fjöru og fylgdu út fjallinu og stungu hrognkelsin með sérstökum sting þar sem þau lágu við steina í þanginu.

Nú sést ekki lengra héðan frá Kirkjuhóli, en ef ekið er inn með Gilsfirði frá Fóðuriðjunni, þá er komið að Ólafsdal, þar reisti Torfi Bjarnason fyrsta búnaðarskóla landsins árið 1880 og rak hann til ársins 1907.

Torfi var mikill atorkumaður og beitti sér fyrir nýjungum og framförum í landbúnaði. Hann flutti inn skosku ljáina, smíðaði plóga, kerrur og fleiri landbúnaðartæki, rak tóvinnuvélar o.m.fl. Hann var forgöngumaður í félagsmálum, vann að stofnun búnaðarfélags Dalasýslu 1886 og beitti sér fyrir stofnun kaupfélagsins 1898. Torfi andaðist 1915 og hvílir í kirkjugarðinum á Hvoli.

Nú er lokið við að skoða Saurbæinn og þá er ekið áfram frá Kirkjuhóli að vegamótum hjá Skriðulandi og beygt til hægri fram Hvolsdal og suður um Svínadal til Hvammssveitar og lýkur hringferðinni um Strandir á Leysingjastaðamelum, en hringurinn er alls um 100 km.

Skrifað af Magnúsi Gestssyni og gefið út á sínum tíma í bæklingi á vegum Byggðasafni Dalamanna. Síðar uppfært af Sigurði Þórólfssyni í Innri-Fagradal.



Tekið af; http://dalir.is/ferdast-um-dali/strandahringurinn/
Ungmenna- og tómstundabúðir Laugum í Sælingsdal 371 Búðardal kt.570904-4340
✕